Byrjaðu á því að endurræsa öll tæki (ljósleiðarabox, ráter, tæki og tölvur) og mæla svo hraðann á speedtest.net.
Ef þú ert að nota þráðlaust net á Nova ráter, ættir þú að fá hraða sem er nóg í alla daglega notkun ef þú ert með mjög gott merki. Einnig er alltaf betri hraði með snúrutengingu sem gerir allt ráp á netinu enn hraðara.
Ef þú ert að upplifa það hægt net að þig langar að kasta ráternum út um gluggann (Við mælum ekki með því), þá gæti eitthvað af þessu verið að:
- Lélegt þráðlaust merki
- Eldri búnaður
- Álag á búnaði
- Lélegar snúrur
Aldur tölva, tækja og ráters hafa öll áhrif á hraða. Þráðlaus nettækni kemur í kynslóðum, rétt eins og farsímanet (2G, 3G, 4G, 4.5G, 5G), sem hefur mikil áhrif á hraða. Fyrir nokkrum árum kom út staðall sem er kallaður AC staðallinn og bætir hann afköst umtalsvert. Kröfurnar á þráðlaus net hafa aukist mikið síðustu árin. Aldur ráters og álag vegna fjölda tengdra tækja eru tvær helstu ástæður hraðavandamála.
Ýmislegt getur valdið álagi á netsamband eða ráterinn sjálfan, sem getur dregið niður hraða. Helsti sökudólgurinn þar er Peer-To-Peer netnotkun, sem þekkist betur undir nafninu Torrent. Þar á eftir koma sérstakar DNS-stillingar og net- og vírusvarnir. Slökkvið á öllu slíku og jafnvel aftengið helst öll tæki og allar tölvur nema þá einu sem mælir á speedtest.net til að sjá ykkar raunhraða, án truflana.
Það er einnig mögulegt að vírar í netsnúru séu farnir að detta í sundur. Sérstaklega ef gengið eða lokað er á snúru. Þá veitir snúran skert samband. Það getur haft áhrif á myndbandsstreymi og mesta mögulega hraða. Skiptið lélegum snúrum út og gangið frá þeim þannig að þær verði ekki fyrir hnjaski.