5G er næsta kynslóð farsímakerfa og færir þér framtíðina i fimmta gír!
Blússandi háhraðatenging sem býður upp á meiri afköst, meiri nákvæmni, styttri svartíma og fleiri samtíma-tengingar fyrir allskonar tæki og farartæki. Fáránlega hratt streymi, háskerpugæði og niðurhal á ofurhraða. Þú getur spilað tölvuleiki í bestu mögulegu gæðum hvort sem þú ert í strætó eða heima við skjáinn. 5G mun breyta leiknum í nýsköpun, tækniþróun, afþreyingu, rafíþróttum, viðskiptum, verslun og ferðalögum. Möguleikarnir eru óteljandi!
Meiri nethraði felur í sér mikil tækifæri og sagan hefur kennt okkur að stór stökk í nethraða hafa leitt af sér stofnun fjölda nýrra fyrirtækja og hafa haft miklar breytingar á daglegu lífi okkar. 5G er skrefið í átt að fleiri nýjungum sem bæta og einfalda líf okkar. Einmitt þess vegna er uppbygging fjarskiptakerfa mikilvæg innviðafjárfesting sem sér til þess að við séum tilbúin til að taka næsta skref inn í spennandi og snjalla framtíð.
5G er svo miklu meira en bara hraðara niðurhal. Með 5G opnast stór tækifæri í nýsköpun og tækni, þá verður hægt að búa til samskiptanet á milli ótal tækja, hvort sem það eru tæki á heimilinu eða hreinlega farartæki. Fyrst kemur tæknin og svo koma tækin. Sjálfkeyrandi bílar munu koma og 5G er forsenda þess að þessi farartæki tali saman. Þegar umferðin er orðin snjöll þá munum við kannski kveðja endalausar bílaraðir og bið. Þegar ísskápurinn verður tómur gætir þú fengið sjálfkrafa drónaheimsendingu með öllu sem þú þarft. Fjarskurðaðgerðir og hvaðeina! Ef þú getur ímyndað þér það, verður það ábyggilega hægt í framtíðinni.
5G og öryggi
Öryggi skiptir okkur öllu máli! Við fylgjumst mjög vel með umræðunni og leggjum gríðarlega áherslu á áreiðanleika og öryggi kerfa okkar. Við gerum reglulega áhættumat á kerfum Nova og uppfærum það mat með tilliti til umræðunnar. Ennþá hefur ekkert komið fram um óeðlilega eða óásættanlega veikleika og því miður virðist umræðan ákaflega pólitísk. Öryggið er ávallt í fyrirrúmi hjá Nova.
Huawei hefur náð ákveðnu forskoti í 5G tækni og mikilvægt að spila með þeim sem eru framarlega í hverri tækni sem er í boði. Nova byggir kerfi sín á fleiri en einum framleiðanda og hefur átt farsælt tæknisamstarf við Huawei, Cisco, Nokia og fleiri aðila.
Allur okkar búnaður er CE merktur og við fylgjum öllum kröfum Evrópusambandsins við kaup, uppsetningu og rekstur okkar 5G kerfi. Við lútum einnig ítrustu kröfum frá Geislavörnum Ríkisins og vinnum í samráði og samstarfi við þá varðandi öryggisúttektir og eftirlit. Geislavarnir Ríkisins fylgjast vel með þróun 5G mála erlendis og eru með virka þátttöku í samstarfi norrænna geislavarnastofnana og alþjóðlegu samstarfi innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fjallað er um 5G og hugsanleg áhrif á fólk og umhverfi.
Áhugasamir geta skoðað fréttir og umfjöllun um 5G á vefsíðu Geislavarna og spurningar og svör um 5G fjarskiptanet og heilsu af vef WHO og nýjar viðmiðunarreglur ICNIRP fyrir 5G.