Í dag geymum við dýrmæt gögn á farsímunum okkar eins og myndir, myndbönd, vinnugögn, tölvupósta og margt margt fleira.
Til þess að vera með öryggið á oddinum og verja þig fyrir tjóni eða óhöppum er mikilvægt að eiga afrit (e. Backup) af tækinu ef allt fer á versta veg. Allir símar geta orðið fyrir tjóni, týnst eða gleymst þegar á að uppfæra tæki og kaupa nýtt.
Til þess að sporna við þessu býður Apple upp á þann möguleika á að hlaða upp afriti af iPhone símum í skýið hjá sér sem kallast iCloud.
Grunngeymslupláss fyrir alla sem eiga AppleID aðgang eru 5GB, sem dugar skammt fyrir flesta í dag.
Apple býður upp á meira geymslupláss gegn vægu mánaðargjaldi, eða 50GB fyrir $0.99 eða 200GB fyrir $2.99. Stærsta plássið í boði eru 2TB fyrir $9.99.
Til þess að vista afrit þarf að fara í gegnum nokkur skref.
Fyrst opnar þú stillingar í iPhone símanum þínum og velur AppleID flipann og smellir á iCloud:
Því næst skrunarðu niður, velur iCloud Backup og kveikir á því. Þá ætti takkinn að verða grænn.
Hér er hægt að stilla að vista alltaf afrit á ákveðnum tímum þegar síminn er tengdur WiFi og í hleðslu.