Vegna skjálfandi jarðar undanfarna daga og vísbendinga um að eldgos sé hugsanlega að hefjast í nánd við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga viljum við benda á nokkra hluti.
Stofnnet Nova nýtir sér allar tiltækar ljósleiðaraleiðir á Reykjanesskaga bæði fyrir aðal- og sívirkar varaleiðir. Helstu stofnleiðir liggja samhliða Reykjanesbraut og Suðurstrandarveg og eru því sitthvoru megin Reykjanesskaga og eins fjarri líklegum eldsumbrotum og mögulegt er.
Ljósleiðaralagnir í jörðu eru almennt vel varðar gagnvart jarðskjálftavirkni og það eru litlar líkur á rofi af þeim völdum. Hraunstreymi er líklegra til þess að valda rofi á ljósleiðaralögnum vegna mikils hita, jafnvel þó þær séu grafnar í jörðu. Núverandi mat á hraunstreymi gerir ráð fyrir streymi til suðurs og þá eingöngu líkur á rofi á þeirri leið ef það nær að ljósleiðaralögnum við Suðurstrandarveg.
Við munum fylgjast náið með þessu öllu saman, uppfæra áhættumat og upplýsa um aðgerðir ef aðstæður breytast.