Ef þú ert með bilað eða gallað tæki og ert að velta fyrir þér hvort græjan sé í ábyrgð, þá eru hérna nokkrir punktar sem ættu vonandi að hjálpa.
Ef þú keyptir tæki hjá Nova þá er það í ábyrgð í 24 mánuði frá deginum sem það var keypt. Svo ef það koma upp gallar eða bilanir í græjunni á þessum tíma sem það er í ábyrgð þá getur þú komið með tækið til okkar í viðgerð. Nova er eitt af örfáum fyrirtækjum á landinu sem býður upp á 2 ára ábyrgð á vörum sem eru keyptar á fyrirtækjakennitölu.
Bilanir sem rekja má til vatns- og rakaskemmda, högg- og hnjaskskemmda, eða hverskonar rangrar meðferðar á tækinu falla ekki undir ábyrgð. Svo ef þú misstir tækið í sundlaug eða blandara þá er það því miður á þína ábyrgð. Ef þú ert óheppna týpan þá mælum við auðvitað með að kaupa tryggingu fyrir tækið þitt. Svo má líka nefna að eðlilegt slit á tæki fellur ekki undir ábyrgð.
Greining á símtæki fer fram hjá umboðsaðila eða viðurkenndum viðgerðaraðila tækisins. Ábyrgð fellur niður ef tæki hefur verið opnað af aðila sem ekki hefur til þess tilskilin leyfi framleiðanda. Ábyrgð fellur niður ef við tæki eru notaðir aukahlutir sem ekki eru viðurkenndir af framleiðanda (t.d. framhliðar, hleðslutæki, loftnet og rafhlöður).
Uppfærsla hugbúnaðar síma fellur ekki undir ábyrgð nema bilun megi beinlínis rekja til hans.
Nova ábyrgist ekki afritun gagna og er viðskiptavini gert að afrita gögn svo sem myndir, símanúmer o.fl. áður en sími er settur í viðgerð.
Ef skoðun leiðir í ljós að tæki reynist ekki í ábyrgð færð þú upplýsingar um það í SMS skeyti eða í tölvupósti frá Nova þar sem áætlaður kostnaður við viðgerð er tilgreindur, reynist tækið viðgerðarhæft. Þú hefur svo allt að 30 daga til að ákveða hvað skuli vera gert við tækið. Eftir það áskilur Nova sér rétt til að ráðstafa tækinu í endurvinnslu.